Lífið í fjörunni

Fjara er sá hluti af búsvæði sjávar, þar sem fullsaltur (>30 S) eða ísaltur sjór (0,5–30 S) flæðir yfir land á flóði eða í brimi. Við skjólsæla strönd takmarkast fjara að mestu við mörk sjávarfalla en við brimasama strönd, þar sem sjór gengur mismikið yfir land í hvassviðri, geta efri mörk fjörunnar náð umtalsvert ofar en efstu flóðamörk og neðri mörkin jafnframt staðið nokkuð ofan við neðstu fjörumörk. Fjöru tilheyra því saltir og ísaltir pollar ofan stórstraumsflóðmarka, ásamt brimúðabelti þar sem fjörusverta vex. Breidd eða umfang fjöru á hverjum stað ræðst því af hæðarmun flóðs og fjöru, auk brimasemi og landhalla. Flatarmál fjöru á Íslandi er metið um 1008 km2 og eru eyjar og sker þá meðtalin, auk fjörukamba sem alla jafna eru mjóar landræmur ofan við efstu flóðamörk þar sem áhrif sjávar eru afgerandi.

Íslenskt efni til að greina fjörulífverur hefur verið af skornum skammti og fannst okkur því löngu kominn tími til að bæta úr því. Biblía okkar hefur lengi verið kverið Fjörulíf, sem Ferðafélag Íslands gaf út 1986. Það rituðu Agnar Ingólfsson, Hrefna Sigurjónsdóttir og Karl Gunnarsson, en Eggert Pétursson teiknaði myndir. Þær eru allar svarthvítar og textinn er mjög knappur, svo kverið er barn síns tíma. Önnur grundvallarrit í greiningu fjörulífvera er Skeldýrafána Íslands I og II eftir Ingimar Óskarsson, sem kom út 1952 og 1962, en var endurútgefin í einu bindi 1986. Sá eldri okkar varð reyndar þeirra gæfu aðnjótandi að fara í fjörferð með Ingimari, en fyrrnefndur Agnar, svo og Jón Baldur Sigurðsson voru einnig lærimeistarar í fjörufræðum og greiningu fjörulífvera. Guðmundur Páll Ólafsson gaf út hið mikla rit sitt um ströndina 1995 og Agnar fjörubók í stóru broti 1990, en þær bækur henta illa í vettvangsferðir. Smákver hafa verið gefin út um einstaka hópa eða tegundir lífvera.

Nokkrir aðrir vefir hafa jafnframt litið dagsins ljós, tveir hjá Námsgagnastofnun, einn hjá Háskólanum á Akureyri (Vistey), annar hjá Hafrannsóknarstofnun o.fl. Nokkrir hafa gert grunnsævinu skil: Erlendur Bogason með vef sínum sjávarlíf.is, Gísli Arnar Guðmundsson, svo og Jörundur Svavarsson og Páll Dungal í bókum. Það er von okkar að þessi vefur verði kærkominn viðbót við það efni sem fyrir er.

Þakkir

Anna Melsteð hjá Anok margmiðlun aðstoðaði við vefgerð. Sölvi Rúnar Vignisson hjá Þekkingarsetri Suðurnesja fór yfir myndir og texta og lagði til mynd af lónaþreifli. Starri Heiðmarsson hjá Náttúrurstofu Norðvesturlands staðfesti greiningar á fléttum og lagði til mynd. Björn Hjaltason lagði einnig til mynd. Þessu góða fólki færum við okkar bestu þakkir. VEFURINN ER ENN Í VINNSLU og því eru allar athugasemdir og leiðréttingar eru vel þegnar og sendist á netfangið fjorulif [hjá] gmail.com.

Rannís/Þróunarsjóður Námsgagna, Rannsóknarsjóður síldarútvegsins og Hagþenkir studdu okkur rausnarlega og gerðu þessa vefgerð að raunveruleika.

Þangfjörur
Nákuðungar að næra sig á hrúðurkörlum.
Klapparfjara á Stokkseyri.
Blálilja
Blálilja