Kúfskel (Arctica islandica)

Útlit

Stórar egglaga eða hringlaga skeljar með áberandi lengdarrákum.  Nefið er aðeins framan við miðju á skelinni.  Þykkur gljáandi hjúpur sem er brúnn á smærri skeljum en hjá þeim stærri er hjúpurinn grænbrúnn og jafnvel svartur.  Skelin er hvít eða ljósbrún.  Skeljar sem veiddust í rannsókn á kúfskel fyrir Norður- og Austurlandi þá voru skeljarnar 7 til 202 ára gamlar.  Tegundin verður reyndar allra dýra elst (að frátöldum þeim sem lifa í sambýli), en árið 2007 veiddist nærri Grímsey kúfskel sem var 507 ára gömul.

Fæða og æxlun

Skelin dælir sjó í gegnum sig og lifir á smásæju þörungum of lífrænum ögnum sem eru í sjónum sem fer í gegnum dýrið.  Einkynja dýr sem æxlast allt árið.  Dýrin verða kynþroska 5 til 11 ára.  Ytri frjóvgun, lirfa (fyrst trochophore og síðar veliger) þroskast fljótlega eftir frjóvgun, lirfan leitar uppi hentugt búsvæði og sest þar að og þroskast í skeldýr.

 Útbreiðsla

Allt í kringum Ísland aðallega á 0 til 100 m dýpi í malar-, sandbotni eða fínna seti.  Lifir í Norður-Atlantshafi frá Hvítahafi og suður með Noregsströndum suður til Biskajaflóa.  Við Norður-Ameríku finnst skel frá Labrador og suður til Norður-Karólínu.

Nytjar

Nýtt um í gegnum aldirnar til beitu hér við land og frá því um aldamótin 1900 hefur skelin verið veidd með plógum.  Það er ekki fyrr en síðustu áratugi sem er farið að nýta hana til manneldis en aflinn er seldur erlendis.