Bogkrabbi (Carcinus maenas)
Útlit
Óliðskiptur skjöldur hylur ofanverðan búkinn. Skjöldur bogkrabbans er breiðari en hann er langur, getur orðið 8 cm á breidd og 6 cm á lengd. Fætur eru 8 og hann er með tvær jafnstórar gripklær. Augun standa á stuttum stilkum útúr höfðinu. Liturinn er dökkgrænn eða grænbrúnn. Bogkrabbi skríður úr skelinni nokkrum sinnum á ári meðan hann er ungur, en árlega þegar hann fullorðnast.
Fæða og æxlun
Bogkrabbi er dýraæta, nærist á alls kyns smádýrum eins og burstaormum, samlokum, kuðungum, hrúðurkörlum og og öðrum kröbbum. Mökun verður þegar kvendýrin hafa skelskipti. Seinni hluta sumars gengur karldýrið á lagið þegar kvendýr er að fara í skelskipti, þá heldur hann utan um kvendýrið í nokkurn tíma eða þar til skelskiptin verða og mökun fer fram. Kvendýrið hrygnir appelsínugulum hrognum sem það festir undir skjöldinn. Hrognin þroskast undir skildinum fram á næsta vor. Þá klekjast út sviflægar lirfur, alls ólíkar foreldrunum.
Útbreiðsla
Bogkrabbi algengur við Suðvesturland en finnst ekki annars staðar. Hann lifir í grýttum fjörum, undir steinum, í þangi og fjörupollum, frá miðri fjöru og niður á 60 m dýpi á Suðvestur- og Vesturlandi á miðlungsbrimasömum og skjólsælum stöðum. Hann finnst bæði á hörðum og mjúkum botni. Bogkrabbinn er útbreiddur við strendur Evrópu frá Norður-Noregi suður til Gíbraltar og einnig verður vart við hann í Máritaníu í Vestur-Afríku. Á síðustu öld dreifðist tegundin víða með skipum, meðal annars til austur- og vesturstrandar Norður-Ameríku og til Ástralíu.
Nytjar
Bogkrabbi er veiddur í gildrur og etinn, þó hann sé ef til vill í smærra lagi.