Flatormar eru líklega þeir hryggleysingjar sem fæstir Íslendingar þekkja. Nafn fylkingarinnar á latínu og íslensku er lýsandi fyrir útlit þessara orma, allir eru þeir flatir og þunnir, þeir eru ekki liðskiptir eins og liðormarnir, t.d. burstaormarnir. Þetta eru dýr sem eru tvíhliða og hafa ekkert líkamshol, taugakerfi er einfalt, þeir eru ekki með blóðrásar- né öndunarkerfi. Öndun á sér stað með flæði (sveim) í gegnum yfirborð húðar, það er því lífsnauðsynlegt fyrir þessar lífverur að vera flatar og þunnar þannig að efnaskipti geti átt sér stað í líkamanum. Þeir eru yfirleitt með görn en ekkert úrgangslosunarop, hjá sumum flatormum sem eru sníklar vantar görn .
Til eru um eða yfir 26.000 tegundir sem teljast til flatorma og lifa sumir flatormar í sjó, aðrir í fersku vatni. Margir flatormar eru sníklar og sem dæmi má nefna bandorma. Þar á meðal er sullaveikisbandormurinn sem var landlægur á Íslandi en er það í flestum öðrum löndum.