Balanus balanus

Útlit

Þetta er stórvaxinn hrúðurkarl, skelin er strýtu- eða keilulaga og oft 2-3 cm í þvermál. Keilubotninn er hringlaga með óreglulegri brún. Yfirborðið er áberandi langhryggjótt, hvítt eða ljósbrúnt á gömlum, dauðum dýrum. Plöturnar sem verja opið eru eins og fuglsgoggur í laginu.

Útbreiðsla

Finnst neðarlega í fjörum og niður á allnokkurt dýpi á steinum, klettum, skeljum og öðru hörðu undirlagi. Tegundin er útbreidd um allt norðurhvel og mætti nefna hana stórkarl á íslensku, en ekkert nafn hefur fest sig í sessi, enn.

Fæða og æxlun er svipuð og hjá fjöruhrúðurkarli.