Hjartaskel (Cerastoderma edule)

 Útlit

Hvítleit eða gulhvít skel, sem er áberandi bárótt, skelin er þykk og kúpt.  Eitt greiningareinkenni eru hve margar bárur eru frá nefi, þær eru 22 til 28.  Skeljarnar má aldursgreina á árhringjum.  Lengd skeljar er 5 cm þegar hún er fullvaxin.  Að innan er skelin hvít- eða brúnleit, fjólublár blettur þar sem aftari dráttarvöðvi festist við skelina.

Fæða og æxlun

Lifir á lífrænum ögnum og smásæjum þörungum, sem skelin síar úr sjó í umhverfi skeljarinnar.  Ytri frjóvgun, lirfa (fyrst trochophore og síðar veliger) þroskast fljótlega eftir frjóvgun, lirfan leitar uppi hentugt búsvæði og sest þar að og þroskast í skeldýr.

 Útbreiðsla

Lifir í sandfjörum og leirum, stundum er hún það grunnt að það má sjá í skelina í yfirborðinu.  Þolir mismunandi seltustig, þannig að skelin þrífst í árósum þar sem selta er lítil og yfir í fulla seltu í sjó.  Hefst við í fjöru á milli flóð- og fjörumarka.  Algeng í leirum og skjólsælum víkum.  Fannst fyrst við Gufunes á Innnesjum árið 1948 og hefur breiðst út eftir það við Vestur- og Suðvesturland.  Lifir við austanvert Atlantshaf frá Norður-Noregi og á strandsvæðum Evrópu, suður með vesturströnd Afríku að Senegal, lifir einnig í Miðjarðarhafi og Svartahafi.

Nytjar

Vinsæl matskel á meginlandi Evrópu og Bretlandseyjum en hefur lítið verið nýtt til manneldis hér á landi.