Hörpudiskur (Chlamys islandica)

 Útlit

Skeljarnar eru þykkar, nokkuð flatar fyrst en verða kúptari með aldrinum.  Áberandi geislótt rif sem geta verið með sljóum broddum sem eru helst við brún skeljar.  Litur er breytilegur frá hvítum yfir í rauðleitar eða mógráar skeljar.  Skeljarnar eru gjarnan með dökka og ljósa bauga til skiptis.  Efri skelin þ.e. sú vinstri er jafnan dekkri en hin.  Eyrun eru mismunandi af stærð og er það fremra stærra.  Stærð skelja á fullorðins aldri er 6,5 til 9,0 cm, þær stærstu sem hafa fundist voru um 15 cm.  Festir sig gjarnan við undirlagið með spunaþráðum.  Hörpudiskurinn er langlíft skeldýr og getur orðið 20 til 30 ára og jafnvel eldri.

Fæða og æxlun

Síar plöntusvif úr umhverfinu.  Hörpudiskur er vel syntur sem er frekar óvenjulegt á meðal samloka, opnar og lokar skelinni á víxl með dráttarvöðvum.  Ekki leggst hörpudiskurinn í langferðir heldur eru ferðalögin innan takmarkaðs svæðis, þá eru það aðallega ferðalög á milli mismunandi dýpis innan tiltekins svæðis.

Ytri frjóvgun, lirfa þroskast fljótlega eftir frjóvgun, lirfan leitar uppi hentugt búsvæði og sest þar að og þroskast í skeldýr.

Útbreiðsla

Búsvæðið er sand og malarbotn.  Algeng skel hér við land, nema við Suðurland, og lifir á tveggja metra dýpi niður á 300 m.  Útbreidd á norðlægum slóðum, frá Karahafi með Rússlands ströndum suður til Noregs og , við Grænland að sunnan verðu og Íshafseyjar Kanada suður til Massachusetts í Bandaríkjunum, Norður-Kyrrahaf við Alaska og suður til Japan.

Nytjar

Hörpudiskur þykir úrvals matur og hefur verið veiddur mikið undanfarna áratugi hér við land.  Megnið af því sem er veitt er til útflutnings.