Þangdoppa (Littorina obtusata)

Útlit

Þangdoppa er lítill og sterklegur kuðungur, vindingarnir eru 5-6. Hyrnan er afar stutt með snubbóttum hvirfli, efri vindingarnir ná lítið eða ekkert upp fyrir neðsta vindinginn. Neðsti vindingurinn er stór, oftast um eða yfir 90 % af hæð kuðungsins. Skelin er slétt og saumurinn grunnur. Þangdoppan er oftast einlit, dökkgrá eða brún, en liturinn getur hins vegar verið mjög breytilegur. Hún getur verið rauðleit, græn eða appelsínugul eða jafnvel verið skærgul og stundum röndótt. Þangdoppan er oftast 8 til 15 mm löng.

Klettadoppa er með áberandi hyrnu (trjónu) og rákóttar skeljar. Hún finnst oftast ofar en þangdoppan.

Fæða og tímgun

Þangdoppan lifir aðallega á smáum þörungum sem vaxa utan á þanginu og étur einnig þangið sjálft, sérstaklega ungar plöntur, sem hún skrapar með skráptungu. Þangdoppan verpur eggjum sem hún kemur fyrir í litlum gagnsæjum slímpúðum sem hún festir við þangið. Eftir 4-5 vikur klekjast eggin og örsmáar þangdoppur fara á kreik.

Útbreiðsla

Finnst allt í kringum land en hún er fremur sjaldgæf við Austurland og finnst varla í sandfjörum Suðurstrandarinnar. Hún lifir í þangbelti klettafjara, bæði brimasömum og skjólsælum. Þangdoppa finnst beggja vegna Norður-Atlantshafs.

Útbreiðsla