Sjóarhrís (Ahnfeltia plicata)
Lýsing
Hnöttóttar, vírkenndar og óreglulega greindar greinar vaxa upp frá lítilli festu. Greinarnar eru svartar eða dumbrauðar, minna á hríslur, geta upplitast við að reka á land. Þær eru um 0,5 mm á þykkt og plantan er 5-20 cm á hæð. Nokkrir einstaklingar geta loðið saman og myndað samhangandi mottur. Vex í fjörupollum, neðst í klapparfjörum.
Sjóarhrís líkist engum öðrum þörungi.
Útbreiðsla
Vex í fjörupollum og neðst í klapparfjörum. Útbreiddur á sunnan og vestanverðu landinu.
Nytjar
Erlendis er sjóarhrís hráefni fyrir framleiðslu á agar, sem er hlaupkennt efni, unnið úr þörungum; notað m.a. við gerlarækt og matvælavinnslu.