Fjöruarfi (Honckenya peploides)

Lýsing

Fjöruarfi er af hjartagrasaætt. Hann er lágvaxinn, 15–20 cm, með þykkum, hárlausum, kjötkenndum og safaríkum, fagurgrænum eða gulgrænum laufblöðum. Blómin eru lítilfjörleg, hvít og fimmdeild. Blómgast í júní.

Bæði blöðin og vaxtarstaðurinn eru einstök fyrir fjöruarfa.

Útbreiðsla

Fjöruarfi vex í fjörusandi allt í kringum landið, hann myndar kringlóttar breiður eða brúska, sem geta orðið allstórar. Fáar plöntur hafa jafnmikla útbreiðslu í sandfjörum Suðurlands og hann.

Nytjar

Fjöruarfi var soðinn í mjólk til að drýgja hana og þótti hollur. Hann er jafnframt góð beitarplanta fyrir sauðfé. Mest var hann nýttur í Meðallandi.