Ögn (Praunus flexuosus)

Útlit

Agnirnar eru svipaðar litlum rækjum eða ljósátu að útliti. Það sem greinir þær einna helst frá er nokkurs konar poki undir búk kvendýranna þar sem þær geyma eggin í. Þær greinast einnig frá ljósátu á því að vera gráleitari. Líkt og ljósátan eru agnir allgóð sunddýr og síkvikar.  Henni svipar mjög til Mysis oculata, sem finnst stundum í fjörum. Lengdin er allt að 25 mm.

Útbreiðsla

Ögnin  Praunus flexuosus fannst fyrst hér við land árið 1970 í Skerjafirði á Innnesjum. Síðan þá hefur tegundin fundist á mun fleiri stöðum, allt frá Eyrarbakka í suðri vestur að Hvammsfirði. Hún finnst í fjörupollum og syndir einnig uppí fjöruna þegar hásjávað er og er þá innanum þang og þara. Líklegt er að hún hafi borist hingað með skipum. Náttúruleg heimkynni tegundarinnar eru í Vestur-Evrópu frá Svalbarða til Ermasundsstrandar Frakklands. Hún hefur jafnframt borist til Norður-Ameríku.