Barmþekja (Tephromela atra)

Útlit

Barmþekja er mjög algeng, snjóhvít hrúðurflétta sem hefur svartar askhirzlur með hvítum, þykkum barmi. Þal barmþekjunnar er hvítt eða ljósgrátt og hrúðurkennt. Það er vörtótt-reitskipt, ýmist fremur þunnt með flata reiti, eða mjög þykkt með útbelgdar, kúptar reitvörtur, 0,5-1,5 mm í þvermál. Svart forþal við jaðarinn. Askhirzlur svartar með hvítri þalrönd, frá einum og allt upp í 3 mm í þvermál, þær stærri með áberandi þykkri, oft skertri eða hrokkinni þalrönd.

Útbreiðsla

Barmþekjan vex á klettum, og er sérlega mikið af henni við sjávarsíðuna, einkum við fuglabjörg, þar sem hún er stórvöxnust. Hún finnst einnig langt inni í landi. Barmþekja finnst í öllum heimsálfum nema Antarktíku.