Beitukóngur (Buccinum undatum)

Útlit

Beitukóngur er með stærstu sniglum fjörunnar. Hann er hvítur, gulur eða brúnn á litinn, með odddregna hyrnu sem er venjulega 7–10 cm á hæð. Vindingarnir eru 7-9 og ekki mjög kúptir. Grunnvindingurinn er stór, oft 60% af allri kuðungslengdinni. Hann er með alllangan rana, sem hann notar til veiða eða til að eta með bráðina, með skráptungu fremst. Oft er hann þakin ásetum, eins og hrúðurkörlum og kalkpípuormum.

Líkist engum algengum kuðungi.

Fæða og tímgun

Beitukóngur er dýraæta, hann lifir mest á kræklingi og öðrum samlokum og burstaormum; tekur einnig hræ, marflær og önnur smákrabbadýr. Beitukóngskvendýrið verpur eggjum og við hrygningu límir kvendýrið um 100 egghulstur saman í klasa. Algengt er að finna egg beitukóngs í fjöru eða flæðarmáli, eggjasekkirnir berast auðveldlega sem berast með brimi og straumum.

Útbreiðsla

Beitukóngur er með algengari sjávarsniglum við Ísland og fer niður á 200 m dýpi. Hann finnst oft í grýttum fjörum, einkum í pollum og undir stórum hnullungum. Hann er útbreiddur beggja vegna N-Atlantshafsins.

Nýting

Eins og nafnið bendir til, var beitukóngur fyrrum notaður í beitu, en einnig til matar. Hann þykir herramannsmatur, að mati höfunda mun betri en innfluttir, franskir landsniglar. Sjá kafla um nytjar.