Blálilja (Mertensia maritima)

Lýsing

Blálilja er af munablómaætt. Hún er lágvaxin, 10-35 cm og skriðul, blöðin eru stinn og ljósblá. Blómin eru 5–10 mm í þvermál, heiðblá. Krónan bjöllulaga, fimmdeild. Blómhnappar rauðir áður en þeir springa út.

Engar plöntur líkjast blálilju. Þar sem hún vex setur hún mikinn svip á fjöruna.

Útbreiðsla

Eindregin fjöruplanta, vex í sand- og malarfjörum allt í kringum land.

Nytjar

Blálilja var brúkuð sem lækningajurt. Það þótti ágætur matur að stappa ræturnar og sjóða í mjólk. Undanfarið hefur vegur laufanna vaxið sem matjurtar og ganga þau undir heitinu ostrulauf, enda þykja þau minna á ostrur.