Dreyrafjöður (Delesseria sanguinea)
Lýsing
Skrautlegur rauðþörungur, þekkist auðveldlega á heilrenndum, lensulaga blöðum með sterklegri miðtaug og greinilegum hliðaræðum, minnir á fjaðrað laufblað. Blöðin geta orðið 30 cm löng og 10 cm breið. Stilkurinn er stuttur og greinóttur. Dreyrafjöður er í mestum þroska á vorin og snemmsumars, síðsumars og á haustin slitna blöðin og á endanum er bara miðtaugin eftir. Þegar líður á veturinn vaxa ný blöð frá gömlu miðtauginni, sem er þá fjölær.
Líkist skarðafjöður (sæeik), sem er með skerta og tennta blaðrönd og er rauðbrúnni en dreyrafjöður. Æðarnar eru jafnframt greinóttari. Þegar blöðin byrja að rifna síðsumars, verður greining erfið.
Útbreiðsla
Dreyrafjöður vex á grýttu undirlagi, en einnig á skeljum og þarastilkum, neðarlega í fremur brimasömum fjörum og niður á 30 m dýpi. Hún vex allt í kringum land, nema síst á Austurlandi og með sendinni Suðurströndinni. Dreyrafjöður er Norður-Evrópsk tegund, vex frá Íshafinu suður til Frakklands.
Nytjar
Er nýtt í snyrtivörur í Evrópu.