Sprettfiskur (Pholis gunnellus)

Útlit

Sprettfiskur er stundum kallaður skerjasteinbítur. Hann er eins og sambland af steinbít og ál, háll eins og áll, getur orðið allt að 20-25 cm að lengd.

Sprettfiskurinn er brúnleitur með ljósari flekkjum en einnig dökkum. Kjafturinn er lítill og dálítið uppstæður. Augu sitja ofarlega. Bakuggi er lágur og nær samfellt frá höfði aftur að sporði. Eyruggar eru litlir og bogadregnir fyrir endann. Sporðblaðka er lítil og nærri hringlaga.

Sprettfiskur líkist engum öðrum fiski, sem finna má í fjörum. Hann finnst stundum í þanghrönnum á fjöru, eiginlega á þurru, enda getur hann „andað með húðinni“.

Fæða og tímgun

Sprettfiskurinn lifir aðallega á smáum fjörudýrum: botnkrabbaflóm, marflóm og burstaormum. Sprettfiskur hrygnir á tímabilinu frá nóvember til febrúar. Hann hrygnir aðallega undir steinum, um eða neðan við stórstraumsfjörumörk í hnullungafjörum. Pörin sjá bæði um að vernda hrognakökkinn og hringa sig utanum hann. Lirfurnar vaxa upp í uppsjó, en seiðin leita til botns í ágúst.

Útbreiðsla

Við Ísland lifir sprettfiskur við alla landshluta. Mest er um hann við vesturströndina enda eru fjörur, aðalbúsvæði hans, víðáttumestar þar. Sprettfiskur lifir einnig neðan fjörunnar og hefur veiðst niður á meira en 100 m dýpi. Hann er fyrst og fremst í hnullungafjörum og leitar skjóls undir þangi og steinum þegar lágsjávað er en fer á stjá á flóðinu að leita sér fæðu. Á sumrin má finna sprettfisk upp í miðja fjöru en á veturna færir hann sig neðar í fjöruna og niður á grunnsævið.

Sprettfiskur lifir í Norður-Atlantshafi. Við Evrópustrendur lifir hann frá Norður-Noregi suður til Ermarsunds. Við austurströnd Norður-Ameríku lifir sprettfiskur frá Baffinslandi suður til New York í Bandaríkjunum.

Nytjar eru engar. Aftur á móti er sprettfiskurinn mikilvæg fæða fyrir nokkrar fuglategundir, hann er aðalfæða teistunnar og stundum kallaður teistufiskur og teistusíli.