Fitjafló (Orchestia gammarellus)

Útlit

Fitjafló er oftast gulleit að lit. Hún er hliðflöt, útlínurnar bogna í átt að afturendanum. Gripklær eru hvítar og stærri en á öðrum marflóm. Augun eru lítil og kringlótt. Fremri fálmarar meira en helmingi styttri en þeir aftari. Lengd 15-18 mm. Stekkur mikið eins og þangfló.

Fæða og æxlun

Venjulega nær fitjafló fullum þroska á tveimur árum, en þroskinn tekur aðeins eitt ár á hverasvæðum. Egg og ungviði fitjaflóar þroskast á kvendýrinu og losna ekki fyrr en þau geta bjargað sér sjálf í fjörunni, en engin sviflæg lirfustig eru til staðar. Möguleikar tegundarinnar til að breiðast út eru því takmarkaðir og er því talið líklegt að hún hafi borist til landsins með skipum frá Evrópu, hugsanlega með sandi eða grjóti úr fjörum, sem notað hefur verið sem kjölfesta.

Útbreiðsla

Fitjafló lifir undir steinum og reknu þangi efsti í fjörum, oft á sjávarfitjum eins og nafnið bendir til. Hún fannst fyrst hér við land í Fossvogi árið 1968. Síðan þá hefur hún fundist á allmörgum stöðum við Suður- og Suðvesturland og hefur meira eða minna samfellda útbreiðslu frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur. Fitjaflóin hefur einnig fundist á nokkrum stöðum við Vestfirði en er þar bundin við jarðhita í fjörum. Útbreiðslusvæði fitjaflóar er frá norðurströnd Afríku allt norður að Þrándheimi í Noregi og Færeyjum en hún finnst einnig við Nova Scotia í Kanada.