Fjöruflær (Gammarus spp.)

Útlit

Fjöruflær eru nokkrar náskyldar tegundir marflóa (Amphipoda), sem erfitt er að greina í sundur. Þær geta orðið 2,5 cm að lengd og eru oftast grænleitar eða brúnleitar. Augun eru fremur stór, nýrnalaga, oftast ljós eða hvít. Lítil hliðarsvipa er fremri þreifurum, en bæði aftari og fremri þreifarar eru langir. Fjöruflær skríða á hliðinni, þær synda vel en stökkva ekki.

Fæða og æxlun

Þegar marflær æxlast má sjá þær hanga saman tvær og tvær og er stærra dýrið, karldýrið ofan á (sjá 2. mynd). Þannig hanga dýrin saman í nokkra daga eða jafnvel vikur þar til æxlun verður. Mökun á sér stað þegar kvendýrið skiptir um ham á æxlunartímanum. Kvendýrið hrygnir þá eggjum í poka á kvið og karldýrið frjóvgar þau þar. Eftir æxlun sleppir hann kvendýrinu en eggin þroskast og klekjast út á kvið kvendýrsins. Litlar marflær sem hafa sömu lögun og foreldrarnir synda þá frá kvendýrinu. Marflær lifa á dýra- og jurtaleifum í fjörunni og fúlsa ekki við hræjum. Heilu hvalhræin hafa verið grafin í fjöru til að láta marflær um að hreinsa beinagrindurnar.

Útbreiðsla

Þessar tegundir eru algengar og útbreiddar í alls kyns fjörum, bæði ofarlega og neðarlega og getur verið mikil mergð af þeim undir steinum eða þangi.