Fjörugrös (Chondrus crispus)
Útlit
Fremur smávaxinn rauðþörungur, 5-20 cm, flatvaxinn og kvíslgreindur. Flatur stilkur vex upp af festuflögu og breiðist hann út í kvíslgreindar, sléttar greinar, allt að sentímetra að breidd. Fjörugrös vaxa á grýttu undirlagi. Þau eru dökkrauð, neðri hlutinn dekkri, en lýsast þegar ofar dregur. Þar sem þau vaxa í mikilli birtu verða efri hlutar plöntunnar gulleitir eða grænleitir.
Líkist sjóarkræðu og blaðbera, blöð sjóarkræðu eru rennulaga, ekki flöt og stilkur blaðbera er sívalur, ekki flatur.
Útbreiðsla
Fjörugrös vaxa á klöppum og stórum steinum neðarlega í grýttum fjörum, bæði skjólsælum og brimasömum. Þau vaxa frá Þjórsárhrauni í Flóa og vestur- og norður um í Breiðafjörð. Tegundin er annars útbreidd víða um Norður-Atlantshaf.
Nytjar
Fjörugrös voru nýtt til að þykkja grauta fyrr á öldum, líkt og fjallagrös. Þeim var safnað á sumrin og þau þurrkuð. Víða í nágrannalöndunum eru unnin úr þeim hleypiefni, sem er notað í ýmiss konar matvæla- og lyfjaiðnaði.