Fjörukál (Cakile arctica)

Lýsing

Fjörukál (krossblómaætt) er einær jurt sem vex í sandfjörum. Blómin standa á klösum, eru hvít eða ljósblá; blöðin eru hárlaus, kjötkennd og fremur þykk. Hæð 10-40 cm. Fræin fljóta vel og berast með sjónum á nýjar sandfjörur. Blómstrar frá júní og fram eftir sumri.

Skriðnablóm líkist fjörukáli, en það er með hærð blöð og vex ekki í fjörum.

Útbreiðsla

Fjörukálið er algengast um vestanvert landið, en finnst þó í öllum landshlutum. Það vex á breiðu belti ofan við flæðarmálið.

Nytjar

Eins og nafnið bendir til, er fjörukál ágæt matjurt og þykir bragðið líkjast mjög venjulegu káli.