Loading...
Fjörugerðir2023-11-20T13:08:43+00:00

Fjörugerðir

Við heimsókn í fjöruna er það strax greinilegt að fjörur eru breytilegar að gerð. Þar er ýmislegt sem hefur áhrif s.s. halli fjörunnar hefur mikil áhrif á gerð hennar, kornastærð, staðsetning og brim, svo nefndir séu nokkrir lykilþættir. Flokkun fjörunnar getur verið á ýmsan máta og fer hún eftir þessum þáttum og fleiri atriðum. Í bók sinni „Íslenskar fjörur“ skipti Agnar Ingólfsson (2001) fjörugerðum niður í: Þangfjörur, hrúðurkarlafjörur, hnullungafjörur, skjóllitlar sandfjörur, kræklingsleirur, sandmaðksleirur, sjávarfitjar, árósa og sjávarlón. Nú hafa fjörur verið flokkaðar samkvæmt vistgerðum af Náttúrufræðistofnun Íslands og fer sú flokkun eftir alþjóðlegum viðmiðum.

Beltaskipting fjörunnar

Beltaskipting klettafjöru

Það hversu oft og lengi hinir ýmsu hlutar fjöru eru undir sjó eða á þurru, hefur mótandi áhrif á lífríkið. Neðri hluti fjöru er oftar og lengur á kafi en allra efstu svæðin og um miðbikið er ræma sem flæðir á og af í öllum sjávarföllum. Fjara helst að jafnaði lengur rök þar sem brimasamt er. Fíngerður sandur heldur betur í sér raka en gróf möl og sjór rennur hraðar af fjöru eftir því sem halli hennar er meiri. Á fjöru getur sjór setið eftir í dældum, gjótum og skorningum, og raki helst lengur í þangi vöxnum fjörum en á beru grjóti. Þar sem brim er mikið eru flestar lífverur fastar við botn, en þó geta hreyfanleg dýr þrifist í skjóli undir þanginu. Því minna brim, þeim mun meira er um hreyfanleg dýr í fjörunni. Aðrir eðlisþættir, eins og selta, hitastig sjávar og hvort fjara veit móti sól eða er skuggsæl, hafa einnig áhrif á tegundasamfélög í fjörum. Í brimasömum fjörum er einnig að finna ýmsar lífverur en þær þurfa þá að standast það álag sem aldan veldur. Sandfjaran er snauðari af lífi en fóstrar samt ýmiskonar lífverur.

Við flokkun og kortlagningu fjöruvistgerða er tekið mið af EUNIS-flokkunarkerfinu eins og kostur er og sömuleiðis af gögnum og flokkun Dr. Agnars Ingólfssonar. Efstu flokkar EUNIS-kerfisins miðast við gerð fjörubeðs (undirlags), brimasemi, hitastig sjávar, seltu og loftslag en þegar komið er dýpra í flokkunina er tekið mið af tegundasamsetningu lífríkisins, þ.e. ríkjandi gróðri og dýralífi. Íslenskar fjörur eru flokkaðar í 24 misjafnlega víðtækar vistgerðir þar sem segja má að fjaran sjálf sé fyrsta stig flokkunarinnar. Á öðru stigi eru fjörur flokkaðar sem grýttar fjörur eða setfjörur,  sem síðan skiptast frekar í enn fleiri undirflokka.

Fjörugerðir

Go to Top