Fjaran

nágrenni við hana og lífríki hennar hefur örugglega einnig alltaf vakið undrun og aðdáun fólks. Síðustu áratugina hefur svo útivistargildi fjörunnar margfaldast við aukinn frítíma og útivistaráhuga. Margir sækja þangað til þess að skoða náttúruna og þá lífsfyllingu sem það gefur að vera í nánu sambandi við hana. Brimið getur verið stórfenglegt á að horfa og maðurinn finnur vel fyrir smæð sinni þegar stórar öldur skella á ströndinni, sem er svo andstæðan við öldugjálfur í logni, sem einnig er heillandi að upplifa. Í fjörunni er að finna fjölbreytt lífríki af ýmsum toga og umhverfi hennar er heimur þar sem mætast haf og land. Lífverur fjörunnar þurfa að geta tekist á við þetta breytilega umhverfi, þar sem er flóð og fjara, ennfremur ölduganginn, sem er mismikil eftir því hvernig viðrar. Fjörur við Ísland eru lífríkar víðast hvar og sérstaklega þar sem aðstæður eru þannig að þar er fjöruþörunga er að finna. Fjölbreytt lífríki strandsvæða er oft tengt fjöruþörungum og eru þeir áberandi, nema í sandfjörum, sem einkenna stóran hluta suðurstrandar Íslands. Leirur eru skjólsælir staðir innfjarða, þar sem einnig er lítið af fjöruþörungum. Lífríki þeirra getur þó verið fjölskrúðugt, því til vitnis er fuglafjöld, sem oft hópast á leirurnar og sækja í smádýr sem lifa í þeim.

Belti fjöruþörunga nær frá efstu stórstraumsflóðmörkum og niður á um 200 m dýpi eða þangað sem sólarljósið nær niður. Allskonar lífverur, stórar sem smáar þrífast í þessu belti, hryggleysingjar eru áberandi og þetta svæði eru mikilvægar uppeldisstöðvar fyrir ýmsar fiskategundir. Beltaskipting er í útbreiðslu fjöruþörunganna, sólarljósið er eitt af því sem þar hefur áhrif og mismunandi bylgjur sólarljóssins berast misvel niður í vatn. Efst í fjörunni eru grænþörungar en þeir vaxa ekki nema þar, brúnþörungar eru einnig efst í fjörunni og teygja sig svo niður á grunnsævi. Rauðþörungar vaxa neðarlega í fjörunni og niður á grunnsævi og geta vaxið neðst fjöruþörunga, þar sem þeir eru að nýta það ljós sem nær lengst niður í sjóinn. Rauð og brún litarefni binda orku sólarljóssins í sjávarþörungum og gera plöntunni kleift að nýta ljósið sem berst lengra niður í sjóinn.

Margar lífverur reiða sig á fjöruna allan ársins hring en hjá öðrum er hún búsvæði einungis hluta úr ári. Í fjörum landsins eru sjávarþörungar mest áberandi, en ef nánar er rýnt koma í ljós ýmsar lífverur. Flestar þeirra eru hryggleysingjar af ýmsum toga, svo sem skeldýr, krabbadýr og burstaormar. Margar tegundir hryggdýra byggja afkomu sína á fjörunni og má þá helst nefna til sögunnar ýmsa fiska. Fuglar eru einnig áberandi og nýta þetta búsvæði. Sumar fuglategundir sækja í fjöruna í stuttan tíma á hverju ári en aðrar eru þar að staðaldri.

Fjörur eru misaðgengilegar og þægilegast eru að heimsækja smágrýttar fjörur og sandfjörur. Víða við bæi og annað þéttbýli, er almenningi gert erfitt fyrir að komast niður í fjöru, þar sem hlaðnir hafa verið varnargarðar til þess að sporna við ágangi sjávar. Það er á ábyrgð sveitarfélaga að hafa stiga yfir varnagarða eða útbúa þá þannig að hægt sé að komast niður í fjöru með reglulegu millibili og veita þannig almenningi aðgengi að fjörunni en ekki útiloka hann frá henni, eins og víða er gert nú um stundir. Varnargarðar þessir hindra líka aðgengi fugla með smáa unga að fjörunni, það getur t.d. verið erfitt fyrir æðarkollu að komast á sjó með unga sína yfir stórgrýttan sjóvarnargarð. Þeir sem hanna og bera ábyrgð á sjóvarnargörðum þurfa að tryggja aðgengi manna og málleysingja að fjörunni.