Dýr

Til dýra teljast fjölfruma lífverur sem eru ófrumbjarga, þessar lífverur þurfa því að verða sér úti um fæðu á einhvern máta. Dýr geta ekki framleitt fæðu fyrir sjálfa sig eins og plöntur gera með ljóstillífun. Í líkama þeirra eru oftast frumur af ýmsum gerðum. í flóknari dýrum eru þær iðulega mjög sérhæfðar og starfa saman í vefjum sem mynda líffæri og líffærakerfi. Flest dýr eru með vöðva og taugar en hvorugt er að finna í svömpum. Samkvæmt flokkunarfræðinni þá falla dýr undir sérstakt ríki. Næsta flokkunarfræðilega eining fyrir neðan ríki er nefnd fylking. Dýrin teljast vera með 30 til 40 fylkingar eftir því hvernig skipað er í þær en tala fylkinga fer eftir því til hvaða heimilda er horft. Fjölbreytileikin er gríðarlegur og lífsformin mismunandi innan þessara fylkinga og tegundirnar margar. Það er reyndar ekki vitað hversu margar dýrategundir eru til á Jörðinni, sumir áætla að til séu um 7,77 miljónir dýrategunda. Helstu fylkingar dýra eru: Svampar, holdýr, flatormar, þráðormar, lindýr, liðormar, liðdýr, skrápdýr og hryggdýr. Í íslenskum fjörum eru að finna dýr frá þessum fylkingum þótt þau séu misáberandi vegna lífshátta eða stærðar.

Óvenju stór hópur ólíkra dýra teljast til fjörudýra. Þar má m.a. telja seli, fugla, fiska, svo og fjöldann allan af hryggleysingjum. Þeirra þáttur er stærstur hér. Eins og með þörungana, er beltaskiptingin augljós meðal dýranna. Brimasemi og botngerð ræður miklu um samsetningu fánunnar.

Það hversu oft og lengi hinir ýmsu hlutar fjöru eru undir sjó eða á þurru, hefur mótandi áhrif á lífríkið. Neðri hluti fjöru er oftar og lengur á kafi en allra efstu svæðin og um miðbikið er ræma sem flæðir á og af í öllum sjávarföllum. Fjara helst að jafnaði lengur rök þar sem brimasamt er. Fíngerður sandur heldur betur í sér raka en gróf möl og sjór rennur hraðar af fjöru eftir því sem halli hennar er meiri. Á fjöru getur sjór setið eftir í dældum, gjótum og skorningum, og raki helst lengur í þangi vöxnum fjörum en á beru grjóti. Þar sem brim er mikið eru flestar lífverur fastar við botn, en þó geta hreyfanleg dýr þrifist í skjóli undir þanginu. Því minna brim, þeim mun meira er um hreyfanleg dýr í fjörunni. Aðrir eðlisþættir, eins og selta, hitastig sjávar og hvort fjara veit móti sól eða er skuggsæl, hafa einnig áhrif á tegundasamfélög í fjörum.