Fuglar – Aves (flokkur)
Sá hópur hryggdýra sem er einna mest áberandi í fjörunni eru fuglar. Þeir hafa nokkur sameiginleg einkenni svo sem að vera með jafnheitt blóð, fjaðrir sem gerir fuglum kleift að fljúga með sérhæfðum framlimum sem eru vængirnir. Fuglar eru með gogg og tvo fætur. Bein þeirra eru mjög létt þar sem þau eru hol að innan. Margar tegundir fugla nýta sér fjöruna og sækja sumir fuglar þangað í stórum hópum. Sumir fuglar eru háðir fjörunni stuttan tíma á ári en aðrir eru þar meira og minna allan ársins hring. Þeir fuglar sem nýta sér fjöruna eru kallaðir fjörufuglar. Fuglategundir í heildina eru um 10.000 og einungis hluti þeirra er að nýta sér fjöruna, helst andfuglar, máffuglar og vaðfuglar.
Nánari upplýsingar um íslenska fugla má finna á fuglavefnum: https://fuglavefur.is