Burstaormar (Polychaeta, flokkur).
Þessir ormar lifa flestir í sjó og hafa sepa út úr líkamsliðum, fóttotur, út úr þeim ganga burstar. Þeir hafa venjulega vel þroskað höfuð á fyrsta lið. Þar eru augu, fálmarar og svokallaðir skynþreifarar (sensory palp). Burstaormar hafa ekki varanleg kynfæri eins og aðrir liðormar heldur þroskast þau á æxlunartíma. Hjá þeim er ytri frjóvgun og verður til hjólberalirfa sem syndir um í sjónum. Flestir burstaormar eru botnlægir, þar lifa þeir á groti eða lifa ránlífi. Burstaormarnir lifa gjarnan í göngum af einhverju tagi sem oft eru þá grafin í sjávarbotn. Lengd ormanna getur verið frá 1 mm og upp í 3 m, en algeng lengd er minna en 10 cm.
Burstarormar eru fjölbreyttur hópur hryggleysingja og það hefur verið lýst um 10.000 tegundum sem má finna víða í heimshöfunum, þeir eru um 70% liðormategunda og geta verið í miklum þéttleika á sumum stöðum. Þeir eru mikilvæg fæða fyrir ýmis dýr, bæði sjávardýr og fugla, svo dæmi séu tekin. Burstaormar algengir í sandfjörum á Íslandi og hér eru þekktar allmargar tegundir, líklega er sandmaðkurinn einna þekktasti íslenski burstaormurinn.
Nýjustu rannsóknir á burstaormum gefa til kynna að það þurfi að endurskoða flokkun þeirra.