Sæbjúgu2023-07-11T22:00:09+00:00

Sæbjúgu (Holothuroidea, flokkur)

Dýrin eru aflöng og lík bjúgum í laginu eins og nafnið gefur til kynna. Þau eru með fimmskiptingu eins og einkennir önnur dýr sem tilheyra skrápdýrum. Munnur og endaþarmsop eru á sitthvorum enda dýrsins. Eftir endilöngu dýrinu liggja fimm raðir sogfóta, 10 – 30 greinóttir angar umlykja munninn og tengjast angar þessir sjóæðakerfi dýrsins. Angar þessir sjást þegar dýrið er við fæðuöflun en ekki þegar það verður fyrir styggð eða þegar þau reka dauð upp í fjöru. Þau anda með pari af greinóttum öndunarfærum sem greinast út frá þarfagangi rétt innan við endaþarmsopið. Úrgangur er einnig losaður út um þessi líffæri.

Sæbjúgu fara hægt yfir og lifa venjulega grafin í sjávarset, undir grjóti eða í glufum. Sæbjúgu eru svif- eða grotætur.
Núlifandi tegundir sæbjúgna eru ekki mjög margar en nú eru þekktar um 1700 tegundir víðsvegar í höfum Jarðar. Þau eru algeng á sjávarbotni á grunnsævi en þau lifa einnig á ýmsu dýpi allt niður á djúpsjávarbotn.

Sæbjúgu

Go to Top