Blómplöntur og byrkingar
Þær eru fjölfruma lífverur sem ljóstillífa og hafa rætur, stöngul og blöð. Þetta eru plöntur sem eru mest áberandi á landi en ekki í sjó og nær allt líf á landi er háð þeim á einhvern máta. Annað nafn á háplöntum er æðplöntur, sem vísar þá til æða (strengvefjar) sem flytja næringu innan plöntunnar. Þeim er skipt upp í tvær gerðir, annars vegar viðaræðar og hins vegar sáldæðar. Fyrrnefnda gerðin flytur ólífræna næringu en sú síðari lífræna næringu. Háplöntum (æðplöntum) er gjarnan skipt upp í fræplöntur (grein clade Spermatophytes) og byrkninga (Pteridophytes, safnheiti, ekki flokkunarfræðileg eining lengur). Fræplöntur bera eins og nafnið gefur til kynna fræ og byrkningar eru plöntur sem bera gró en hafa strengvefi. Búsvæði háplantna er land og ferskvatn, fáar tegundir hafa aðlagast lífi í sjó. Stöku tegund vex neðan flóðamarka og einungis ein íslensk tegund, marhálmurinn, vex í sjó. Það eru líka fáeinar háplöntutegundir sem vaxa í ísöltu vatni. Fjölbreytni þeirra háplantna sem vaxa ofan stórstraumsmarka en eru bundnar efsta hluta fjörunnar er þó töluverð. Þær plöntur og þær sem vaxa nærri fjörunni en ekki inni í landi eru svokallaðar strandplöntur. Á Íslandi háttar þannig til að nokkrar plöntutegundir sem vaxa nær eingöngu á strandsvæðum í nágrannalöndum vaxa hér einnig inn til landsins, þar má nefna t.d. geldingahnapp og kattartungu.
Í heild eru til um 300.000 tegundir háplantna á Jörðu en á Íslandi hafa verið skráðar 489 tegundir.