Fléttur2023-02-26T15:11:17+00:00
  • Strandmerla

Fléttur

Fléttur eru samsettar lífverur, þar sem um er að ræða sambýli svepps og ljóstillífandi lífveru, sem getur annað hvort verið grænþörungur eða blábaktería (bláþörunga). Sá hluti fléttunnar sem er sjáanlegur er sveppur og er ófrumbjarga. Inni í sveppunum, nánar tiltekið á milli sveppþráðanna, er að finna grænþörunga- eða blábakteríutegund. Það er einnig til í dæminu að fléttur eru sambýli þriggja lífvera; blábakteríu, grænþörungs eða asksvepps. Þar sem annar gróður á erfitt með að vaxa eins og t.d. á grjóti í fjörukambinum eru fléttur oft áberandi. Ef grannt er skoðað þá má sjá að á sumum stöðum í fjörum eru þær mjög útbreiddar. Fléttur eru flokkaðar eftir útliti í þrjá hópa þ.e. hrúðurfléttur, blaðfléttur og runnfléttur. Hrúðurflétturnar vaxa fastar við undirlag, blaðfléttur eru með blöð eða flipa sem eru lausir frá undirlagi, runnfléttur eru með greinar sem geta verið býsna smágerðar. Nokkrar tegundir hrúðurfléttna finnast neðan stórstraumsfjörumarka en þar vaxa hinar gerðirnar ekki.

Á heimsvísu eru þekktar um 20.000 tegundir fléttna en á Íslandi hafa verið skráðar um 750 tegundir. Margar tegundir fléttna eru háðar hafrænu loftslagi og aðrar finnast eingöngu í fjörum hér við land.

Go to Top