Gulþörungar (Vaucheria spp.)

Hér vaxa 7 tegundir gulþörunga eða gulgrænþörunga af ættkvíslinni Vaucheria. Gulþörungar eru náskyldur brúnþörungum og eru nokkrir gulþörungar taldir líkjast mjög einfrumungum, sem brúnþörungar þróuðust frá. Gulþörungunum er oft skipt í gullþörunga, gulgrænþörunga  og kísilþörunga, af þeim eru til um 5600 núlifandi tegundir. Gulþörungar vaxa hér einkum á leirum. Á haustin þroskast dvalargró sem lifna við á vorin og mynda gróðurþekju sem lítur út eins og þunn, dökkgræn motta á yfirborði leirsins seinni hluta sumars. Á leirum eru gjarnan kjöraðstæður fyrir þörunginn þar sem nokkuð er af áburðarríku lífrænu efni í setinu. Gulþörungaleirur eru oftast í mjög skjólsælum fjörum, innst í fjörðum og víkum, þar sem ferskvatnsáhrifa gætir. Undirlagið er fínn leir og stutt er niður á súrefnissnautt lag. Yfirleitt er lítið af dýrum í þessum leirum og lífríkið samanstendur nær eingöngu af gulþörungum, ánum og rykmýslirfum.