Fjörunytjar
Íslendingar hafa nýtt sér matþörunga, og þá sérstakalega sölin, frá upphafi Íslandsbyggðar, sem fæðu, fóður fyrir búpening, áburð og til lyfjagerðar. Aðalvaxtarsvæði sölva á landinu eru á Suður- og Vesturlandi, þar sem munar mestu á flóði og fjöru. Þar vaxa sölin á klöppum og steinum þar sem brimið er mest. Nýting sölva hér á landi er aldagömul hefð, eins og kemur skýrt fram í Egils sögu, þegar Þorgerður gabbar föður sinn, Egil Skallagrímsson, frá því að svelta sig í hel, vegna sorgar yfir sonamissi, með því að gefa honum söl; í staðinn orti hann Sonatorrek í minningu sona sinna Gunnars og Böðvars. Menn eru ekki á eitt sáttir um hvort sölvatínsla komi með norskum, írskum eða skoskum landnámsmönnum, en ljóst er að þetta er gömul iðja.
Fyrir utan sölin, sem fyrr hafa verið nefnd og fjörugrös, var alllangur listi þörunga nýttur til manneldis, en oftast mun þeirra þó aðallega hafa verið neitt í hallærum, sem engin skortur var á á fyrri öldum. Lúðvík Kristjánsson nefnir eftirfarandi tegundir sem fólk mun hafa lagt sér til munns og í mismiklu magni: sjóarkræða (svipuð fjörugrösum), klóþang, bóluþang, skúfaþang, beltisþari (einnig nefndur sætiþari), marinkjarni, hrossaþari, stórþari (kerlingareyara), skollaþvengur, purpurahimna og maríusvunta. Til viðbótar nýttust nokkrir þörungar til beitar, eins og klapparþarng, dvergþang, kerlingarhár og fjörufax. Svokallaður súrþari var verkaður og gefin húsdýrum og þótti hann gott fóður.
Skarfakál var eins helsti C-vítamínuppspretta vor og bjargaði mörgum frá að veslast upp í skyrbjúg. Það skorti tilfinnanlega C-vítamín í fæðu íslendinga fyrrum, þegar þeir átu mest fisk- og kjötmeti. En fleira var nýtt úr fjörunni en skarfakál, fjöruarfi og fjörukál voru etin og melgresi var slegið og fræið nýtt sem kornmeti, sérstaklega í Skaftafellssýslum. Sæhvönn er lækningajurt og marhálmur var notaður sem einangrun í húsum og í rúmdýnur. Fé var beitt á sjávarfitjung, kattartungu og strandsauðlauk.
Fjörunytjar í fyrri tíð á Eyrarbakka
Guðni Jónsson (1958) magister frá Gamla-Hrauni telur upp 9 gerðir fjörunytja í bók sinni um sögu Hraunshverfis á Eyrarbakka:
- Hrognkelsaveiði var stundum bæði af bátum og fótgangandi mönnum með netum. Grásleppa og rauðmagi voru til heimabrúks.
- Silungsveiði. Sjóbirtingur var veiddur í net á sumrin.
- Selveiði var stunduð í net og selir voru einnig skotnir í fjörunni. Þetta voru aðallega landselir, en stöku útselur var þó unninn. Kjöt og spik var etið, kópaskinn seld, en skinn af eldri dýrum notuð til skógerðar.
- Beitutekja. Mest var tekið af öðu og sandmaðki. Aðan var alin áfram í fjörulónum.
- Sölvatekja. Söl voru tínd til manneldis, bæði til heimabrúks og svo voru þau seld víða um Suðurland.
- Fjörugrös voru tínd einu sinni til tvisvar á ári, afvötnuð og þurrkuð. Þau voru aðallega seld Skaftfellingum og sérstaklega úr Meðallandi. Þau voru m.a. borðuð með skyri.
- Þangtekja. Þang var eldsneyti hjá sjávarbændum á sjávarjörðum. Þang til brennslu var skorið allt árið, en þó helst vor og haust. Einnig var nýtt þang sem rak upp. Þangið var þurrkað og sett í köst og geymt þannig
- Timburreki. Reki var nokkur, bæði unnið timbur úr skipssköðum, svo og náttúrulegir trjádrumbar. Reki þótti góð hlunnindi og var hann nýttur í húsagerð af rekabændum.
- Fjörubeit. Sjávarjarðir áttu ítök í fjörubeit og var hún mikið nýtt. „Engin beit var við sjóinn á veturna önnur en fjaran, enda var fjörubeit mikil fyrir sauðfé og hross, bæði í innfjörunni og framfjörunni. Einnig sóttust kýrnar mjög eftir því að komast fram í fjöru til að eta söl og rásuðu þangað stundum til að gæða sér á þeim.
Þang var einnig nýtt til áburðar, mokað var úr þanghrönnum beint á tún og í matjurtagarða. Fjörefnin úr þaranum bættu jarðveginn í garðinum. Þangaska var einnig nýtt sem áburður í garða. Skollaþvengur, bóluþang, beltisþari og hrossaþari eru allt brúnþörungar sem nýttir voru til áburðar.