Loading...
Verkefni2023-11-20T13:06:07+00:00

Fjöruskoðun

Fjöruskoðun er heillandi fyrir jafnt unga sem aldna. Þegar fólk fer að hnýsast í fjöruna kemur afar margt skemmtilegt í ljós. Þar lifir aragrúi stórra sem smárra dýra og fjölbreyttur gróður setur svip sinn á hana. Undir þangi lifa krabbdýr ýmiss konar, kuðungar og skeljar. Í fjörupollum, pollum þar sem sjór verður eftir á fjöru, oft þar sem klettar eða hraun mynda fjöruna, er mikið líf, bæði dýr og gróður. Skemmtilegast er að heimsækja fjöruna á fjöru, hún er tvisvar á sólarhring og flóðið er jafnoft. Hér má sjá flóðtöflur https://fos.is/toflur/dagatal/ og https://www.tide-forecast.com/ Einnig er almanak Háskóla Íslands gagnlegt til að skoða flóð og fjöru víða um land.

Tæki og tól í fjöruferð eru fremur einföld. Ílát með loki er nauðsynlegt, ef fólk vill safna einhverju, taka með sér heim til að greina eða mynda. Lítill og/eða stór háfur með fínum möskvum eru brúklegur til að veiða dýr á sundi. Stækkunargler er þarfaþing, sem og gúmmístígvél og jafnvel pollabuxur. Myndavél eða sími eru ágæt hjálpartæki, ef fólk vill ekki hrófla við lífverunum í fjörunni. Það skal tekið fram, að flestar lifandi lífverur sem myndir eru af á vefnum og voru myndaðar í þar til gerðu glerbúri, var sleppt aftur í sjóinn að lokinni töku.

Go to Top