Fjörusverta (Hydropunctaria maura)

Útlit

Fjörusvertan myndar örþunnt, fremur slétt, smásprungið kolsvart þal, þar sem þalreitirnir eru 0,2-0,6 millimetrar. Askhirslan er af pyttlugerð og þrengir stútur þeirra sér oft upp fyrir yfirborðið, svo sjá má svartar bólur á yfirborði, oft gljándi og með laut í toppinn.

Útbreiðsla

Fjörusvertan vex eingöngu á sjávarklettum og steinum, hún myndar venjulega áberandi svart belti efst í fjörunni, þar sem sjó gefur yfir. Fjörusverta finnst í klettafjörum umhverfis land allt. Efsta beltið í fjörunni er oft kallað eftir fjörusvertunni, fjörusvertubelti.