Flekkunökkvi (Tonicella marmorea)

Útlit

Flekkunökkvinn er með rauðleitar skelplötur með misdökkum flekkjum. Hann er um 20 mm að lengd. Undir dýrinu er fótur sem dýrið mjakar sér áfram á, en það getur sogað sig fast með honum ef reynt er að losa það af botninum. Ef hann er losaður frá botninum hringar nökkvi sig saman þannig að skelin ver dýrið.

Flekkunökkvi er algengasti nökkvinn við landið, hann er stærri, dekkri og breiðari en ljósnökkvi (Stenosemus albus). Rauðnökkvi  (Tonicella rubra) er svipaður, en mun sjaldgæfari.

Fæða og æxlun

Lifir á þörungum sem hann skrapar af steinum með skráptungu. Nökkvar eru tvíkynja og eftir frjóvgun verður til sviflæg lirfa sem sest á botninn þar sem skilyrði eru hagstæð.

Útbreiðsla

Víða um land á steinum eða klöppum, neðst í fjörunni eða neðan hennar, allt niður á nokkur hundruð metra dýpi.