Grjótkrabbi (Cancer irroratus)
Útlit
Grjótkrabbi gæti minnt á ofvaxin, rauðleitan bogkrabba, enda er hann stærsta krabbategund sem finnst í fjörum landsins. Skelin er rauðleit, doppótt, með ljósara mynstri, hún getur orðið allt að 15 cm á breidd hjá karldýrum, kvendýrin eru eitthvað minni. Fótapör eru fjögur og gripklærnar svipaðar að stærð.
Fæða og æxlun
Grjótkrabbi er alæta á fæðu úr dýraríkinu. Dýrið verður kynþroska hálfvaxið. Mökun á sér stað á haustin. Kvendýrin líma frjóvguð egg við afturbolsfæturna í allt að 10 mánuði eða að klaki næsta vor. Lirfurnar eru sviflægar framan af.
Útbreiðsla
Grjótkrabbi fannst fyrst hér við land árið 2006 í Hvalfirði. Þetta var jafnframt fyrsti fundur tegundarinnar utan náttúrulegs útbreiðslusvæðis meðfram austurströnd Norður-Ameríku. Þessi tiltölulega stóra krabbategund, með skjaldarbreidd allt að 15 cm, er talin hafa borist hingað með kjölfestuvatni skipa. Hærri sjávarhiti við Ísland á undanförnum áratugum, hefur að öllum líkindum auðveldað landnámið. Frá landnámi hefur grjótkrabbinn breiðst hratt út með vesturströnd landsins og norður fyrir land og hefur nú numið yfir 70% af strandlengju Íslands, frá Faxaflóa austur í Stöðvarfjörð. Í hinu nýja búsvæði grjótkrabbans eru fáar krabbategundir sem keppa við hann um fæðu, aðallega bogkrabbi og trjónukrabbi. Þrátt fyrir að stutt sé liðið frá landnámi virðist grjótkrabbinn vera orðin ráðandi tegund við suðvesturströnd landsins. Sú spurning hefur vaknað hvort hann stefni í að verða ágeng tegund.
Nytjar
Fljótlega eftir að hann nam hér land var farið að gera tilraunir með grjótkrabbaveiðar. Hann er stærri og matarmeiri en aðrir íslenskir krabbar.