Hrognkelsi (Cyclopterus lumpus)

Útlit

Stuttur og digur fiskur, sem hrygnir á grunnsævi. Hreistur vantar og kviðaruggarnir eru samvaxnir í sogflögu fremst á kviðnum. Hrognkelsið hefur stuttan haus og snjáldur, lítinn kjaft og smáar en beittar tennur. Fremri nasir standa út. Augun eru í meðallagi stór. Bolur er stuttur og kviður er hálfflatur. Bakuggar eru tveir og myndar fremri bakuggi háan kamb. Hrygnan er kölluð grásleppa og eru mun stærri en hængurinn, rauðmaginn. Hún er dökkgrá að ofan, ljósari á hliðum og hvít eða ljósgræn að neðan. Yfirleitt er grásleppan 35 til 55 cm að lengd meðan rauðmaginn er yfirleitt frá 28 til 40 cm. Hann er dökkgrár að ofan, grágrænn að neðan, en um hrygningartímann verður hann rauður eða rauðgulur að neðan.

Fæða og tímgun

Fæða hrognkelsanna eru smá svifdýr fyrst, en síðar lifa þau á ljósátu, litlum marglyttum og hveljum. Hrognkelsið lifir á hörðum botni á 20-200 metra dýpi en utan hrygningartímans finnast þau oft miðsvæðis langt úti í hafi.  Hrygning fer fram á grýttum og þanggrónum botni á 0-40 metra dýpi. Hún hefst í febrúar og stendur fram í ágúst á Íslandi, en aðeins fram til maí í nágrannalöndum okkar. Fjöldi eggja er 100-350 þúsund. Eggin eru stór, um 2,5 mm í þvermál. Hængurinn gætir þeirra á meðan þau eru að klekjast út, og ver þau fyrir óvinum. Klakið tekur um 2-3 vikur. Lirfurnar eru um 5 mm við klak og alast þær upp fyrst um sinn í þarabeltinu, en leita dýpra með vaxandi aldri. Þegar kynþroska er náð eru hængarnir orðnir 25-30 cm á lengd en hrygnurnar 34-40 cm langar.

Útbreiðsla

Hrognkelsið finnst víðs vegar við grýttar strendur Evrópu allt suður í Biskajaflóa, við Grænland, Labrador og suður að Þorskhöfða. Þá finnst hrognkelsið einnig um allt Ísland.

Nytjar

Ferskur rauðmagi þykir góður matfiskur, hann er með feitustu fiskum og er fituinnihald holdsins um 20%. Fitan þykir bráðholl. Grásleppan er hinsvegar frekar matreidd sigin, en mest er hún þó nýtt fyrir hrognin, en þau eru flutt út söltuð og síðan lituð og seld sem kavíar. Fuglar eins og kría o.fl. veiða seiðin til matar.