Jafnfætlur (Isopoda)
Þessi ættbálkur tilheyrir krabbadýrum og þær hafa víða útbreiðslu og lifa á landi, í sæ og fersku vatni. Líkami þeirra er gjarnan aflangur og frekar flatur. Jafnfætlur eru frekar lítil dýr, þær minnstu eru 0,3 mm, en flestar eru á bilinu 5 til 15 mm. Stærri jafnfætlur eru reyndar til, eins og tegundin Bathynomus giganteus sem lifir í Karíbahafinu og getur orðið nærri 50 cm að lengd. Jafnfætlur eru jafnan lítt áberandi að lit og frekar litlausar, gráleitir litir eru algengastir hjá þessum dýrum. Eins og flest önnur krabbadýr, eru þær með harða ytri stoðgrind. Hjá þeim eru augun ekki á stilkum, tvö pör af fálmurum, sjö pör af liðskiptum útlimum á frambol og þeir eru álíka langir eins og nafn ættbálksins gefur til kynna. Þrátt fyrir marga fætur þá fara jafnfætlur frekar hægt yfir þegar þær brölta í fjörunni. Á afturbolnum eru sérhæfðir greinóttir útlimir (appendages) sem gegna hlutverki öndunarfæra. Hali er myndaður úr sex liðum en þeir eru oft torgreindir þar sem skjöldurinn á liðunum er runnin saman. Þær jafnfætlur sem eru með hala á afturenda (long-tailed isopods) eru með blöðkufætur undir honum sem nýttir eru til sunds. Fæðuöflunarhættir jafnfætla eru fjölbreyttir, flestar eru alætur eða hræætur, sumar þeirra lifa á plöntum en grotát er algengt, sumar eru síarar, einnig er til í dæminu að þær lifi ránlífi eða jafnvel sníkjulífi. Flestar tegundir jafnfætlna eru einkynja og það er lítill útlitsmunur á kynjum. Eftir klak úr eggjum eru ungar í fyrstu aldir í poka undir frambolnum.
Um 10.414 tegundir eru þekktar og þar af eru um 4.500 sem lifa í sjó, um 5.000 á landi og 500 tegundir finnast í ferskvatni. Þær jafnfætlur sem lifa í sjó eru flestar botnlægar og skríða jafnan um botninn eða fjöruna. Í sjónum finnast þær á öllu dýpi, frá fjöru og niður í sjávardjúp. Þar sem jafnfætlur eru að mestu botnlægar og ferðast ekki um hafsbolinn eru margar tegundir með takmarkaða útbreiðslu eða eru jafnvel einlendar. Ekki hefur tekist að grafa upp hve margar tegundir jafnfætlna lifa við Ísland. Það er þó ljóst að það eru þó nokkrar tegundir sem lifa í sjó. Á Íslandi finnast landkrabbar af ættbálki jafnfætlna, svokallaðar grápöddur og eru þær allar náskyldar og líkar útlits.