Kalkskorpa (Corallinaceae, Phymatolithon sp.)

Lýsing

Sérkennilegur rauðþörungur sem myndar kalkkennda skorpu á grjóti, klöppum eða skeljum, stöku sinnum á öðrum þörungum. Skorpan er bleik eða ljósfjólublá, yfirborðið slétt eða bólulaga. Þykktin er 0,5-1,5 mm og þvermálið 3-20 cm. Kalkskorpur vaxa út frá jaðrinum en vöxturinn er mjög hægur.

Kalkskorpur er hópur allmargra skyldra tegunda. Hér við land finnast þær um eða neðan við miðja fjöru og allt niður á 60 m dýpi, neðan fjörunnar, þar sem sjór er tær.

Útbreiðsla

Vex í klapparfjörum eða grýttum fjörum, frá því ofarlega í fjörunni og niður á meira dýpi en aðrir þörungar. Um er að ræða hóp skyldra tegunda sem er að finna víðsvegar um heiminn.

Engar nytjar eru þekktar.