Kambdofri (Boreotrophon clathratus)

Útlit

Kambdofri er með traustan kuðung, hyrnan er turnmynduð og vindingarnir eru 7. Eintakið á tveimur myndanna er slitið og sjást þar ekki nema 5 vindingar. Grunnvindingurinn er helmingi lengri en hyrnan. Halinn er langur með skástýfðum enda, sem vísar lítið eitt til vinstri. Munninn víður og perulaga, helmingur af lengd kuðungsins. Yfirborð kuðungsins með 7-13 kömbum, stundum blaðkenndum, mest áberandi við sauminn. Enginn nafli og engar snigilrákir. Hæð mest um 3 cm, breidd 1,8 cm.

Aðrir dofrar líkast kambdofra, sá eini sem er álíka algengur er gáradofri. Hann hefur fleiri (16-20) og mun minni og þéttari kamba, eða réttara sagt langrif og gæti minnt á beitukóng. Hann er einnig minni.

Fæða og tímgun

Kambdofrinn er rándýr og borar holur, t.d. í hrúðurkarla, líkt og nákuðungurinn. Hann verpur eggjum sínum í hylki.

Útbreiðsla

Algengur neðst í grýtum fjörum umhverfis land allt, nema við Suðurströndina. Finnst víða um norðanvert norðurhvel jarðar.

Nytjar eru engar.