Klappaskilma Ochrolechia parella

Útlit

Klappaskilma er allstór, hvítleit eða fölgrá skóf, sem vex á klettum.  Hún er nær alltaf með askhirslum sem þekja yfirborð hennar meir eða minna.  Askhirslurnar eru oftast samlitar skófinni, eða með lítið eitt gulbrúnum blæ. Þal klappaskilmunnar er hrúðurkennt, rjómahvítt til gráhvítt, stórt um sig, oft 10-15 sm, vörtótt-reitskipt.

Klappaskilman þekkist best frá kóralskán og mjólkurskilmu á askhirslunum, og hún er heldur ekki eins skjannahvít og þær.

Útbreiðsla

Klappaskilman vex á klettum og hrauni, oft við sjávarsíðuna. Hún er algeng allt í kring um landið meðfram ströndinni, vex oft lengra inni í landi, einkum á Suður- og Vesturlandi, fátíðari inni í landi annars staðar.