Klettadoppa (Littorina saxatilis)

Útlit

Klettadoppa er lítill, þykkur kuðungur, með keilulaga hyrnu og yddum hvirfli. Vindingar eru 5-6, kúptir, grunnvindingurinn er stór og 60-70% af hæð kuðungsins. Saumurinn alldjúpur, munninn stór og breiður, næstum hringlaga. Lokan sem lokar munnopinu þegar dýrið dregur sig inn í skelina, er hringlaga og brún á lit. Skelin er oftast með þverrákum, en stundum án þeirra. Breytileg að lit, oftast grá eða móbrún, en getur verið gul, rauð, hvít eða dökk, stundum með rákum langsum eftir vindingunum. Lengd 12-22 mm. Andar með lungum.

Klettadoppa þekkist frá þangdoppu á hyrnunni og hún lifir ofar í fjörunni en hún.

Fæða og tímgun

Klettadoppan lifir á smáum þörungum og jafnvel skófum á steinum efst í fjörunni. Hún skrapar þörungana af steinunum með svokallaðri skráptungu sem er alsett hörðum tönnum. Eftir æxlun þroskast fóstur klettadoppunnar í móðurinni þar til unginn fæðist sem fullskapaður kuðungur. Á vorin elur klettadoppan lifandi unga sem hafa skel frá fæðingu og eru eins í útliti og foreldrarnir. Þeir eru þó örsmáir þegar þeir fæðast.

Útbreiðsla

Klettadoppan lifir í sprungum og glufum í steinum og klettum þar sem rakt er á fjöru, eða á grjóti og klöppum ofarlega í fjörunni um land allt. Oft er mikið af þeim og auðvelt að finna þær. Hún finnst beggja vegna Norður-Atlantshafs.

Nytjar eru engar hér á landi.