Klóþang (Ascophyllum nodosum)
Útlit
Ein algengasta þangtegund landsins og er klóþangið auðgreint á löngum og mjóum, sléttum blöðum án miðtaugar, stökum loftfylltum bólum og mosagrænum eða gulbrúnt lit. Blöðin geta orðið sentímetri á breidd og 50-100 cm að lengd. Kynbeðin vaxa útúr hliðum greinanna á vorin, belgjast út og mynda hnöttóttar eða egglaga blöðrur á stuttum leggjum, sem detta af þegar þær eru orðnar þroskaðar og plantan æxlast. Þau eru ýmist karl- eða kvenkyns.
Klóþangið líkist engu öðru þangi. Bóluþang er bæði með bólurnar í pörum og vaxtarlag og litur er annar. Þangskegg (Polysiphonia lanosa) er rauðþörungur sem er algeng áseta á klóþangi.
Útbreiðsla
Klóþang vex um mestalla fjöruna og er oft mest áberandi þörungurinn í klapparfjörum eða grýttum fjörum, aðallega í skjólsælum en þó einnig í brimasömum fjörum. Það vex allt umhverfis landið. Það er algengt í norðanverðu Norður-Atlantshafi.
Nytjar
Klóþang er slegið í Breiðafirði og framleitt þangmjöl, sem er aðallega flutt út til framleiðslu á gúmmíefninu algíni, sem meðal annars er notað í ýmiss konar matvælaframleiðslu. Innanlands er þangmjölið nýtt sem fóðurbætir eða áburður. Var áður fyrr nýtt sem skepnufóður, brenni og sennilega sem áburður, auk þess sem menn lögðu það sér til munns í hallærum.