Kræklingur (Mytilus edulis)

Útlit

Kræklingur (bláskel, krákuskel) er meðalstór skel, algeng stærð er 6 cm. Fullvaxnir kræklingar geta orðið 11 cm langir, en það er sjaldgæft, erlendis verða þeir mest 20 cm. Fullvaxnar skeljar eru dökkbláar en þær yngri eru brúnleitar, skeljarnar eru ljósbláar að innan. Skelin er frekar þunn. Á skelinni eru áberandi rákir, s.k. nef er lítt áberandi á enda skeljar og ekki skilið frá endanum. Samlokan festir sig við undirlagið með skeggi, það eru þræðir myndaðir af kirtli sem er innanfótar. Á skeljunum er oft að finna ásætur sem geta verið hrúðurkarlar og mosadýr. Aldur kræklinga er háður undirlagi, þar sem kræklingur er berskjaldaður fyrir afráni eða undirlag óhentugt (óstöðugt) þá lifir hann ekki lengi, jafnvel 98% sem drepst á fyrsta ári. Kræklingar geta orðið 18 til 24 ára.

Aða líkist kræklingi, en getur orðið mun stærri. Nefnið á kræklingi er endastætt, ekki aðskilið frá framenda skeljarinnar eins og á öðu.

Fæða og æxlun

Kræklingurinn er svokallaður síari, tekur fæðu úr sjónum sem streymir í gegnum lífveruna, hún er smásæir þörungar og lífrænar leifar sem eru í sjónum. Kræklingur er einkynja og er eggjum og sæði veitt út í sjóinn þar sem frjóvgun á sér stað. Lirfan þroskast og rekur um í nokkrar vikur eða allt að hálfu ári. Þá sest lirfan á hart undirlag og þroskast í ungan krækling.

Útbreiðsla

Lifir í ýmsum fjörugerðum en er algengastur í árósum. Krækling er aðallega að finna á 5 til 10 metra dýpi í fjörum. Algengur kringum land allt nema við suðurströndina. Kræklingur hefur víða útbreiðslu við norðanvert Atlantshaf og einnig við Kyrrahafsströnd Norður-Ameríku.

Nytjar

Í gegnum aldirnar hefur kræklingur aðallega verið notaður í beitu, en hann var einnig etinn, sérstaklega í hallærum. Ræktun og veiðar hafa verið stundaðar í fáeina áratugi. Krækling þarf að tína yfir veturinn, þumalfingursregla er að tína hann ekki í r-lausum mánuðum, maí – ágúst. Þá safnast þörungaeitur fyrir í honum https://www.mast.is/is/um-mast/eftirlitsnidurstodur/thorungaeitur-i-skelfiski. Kræklingur er mikilvæg fæða fyrir fugla eins og æðarfugl, einnig ýmsa fiska, krabba og krossfiska.