Kuðungakrabbi (Eupagurus spp.)

Útlit

Kuðungakrabbi er einnig nefndur einbúakrabbi en um er að ræða tvær tegundir sem algengar eru við strendur Íslands. Annarsvegar loðni kuðungarkrabbi (Eupagurus pubescens) og snoðni kuðungakrabbi (Eupagurus bernhardus). Krabbarnir eru mjög líkir en sá loðni verður stærri en sá snoðni ásamt því að vera með kjöl á vinstri kló og lengri hár á stóru gripklónni ofanverðri, neðanverðri og að innanverðu.

Kuðungakrabbinn tekur sér bólfestu í tómum kuðungum og þarf að skipta reglulega um húsakynni, eftir því sem hann stækkar. Algengir kuðungar sem hann tekur sér bólfestu í eru þangdoppa og nákuðungur fyrir smærri dýr og beitukóngur fyrir stærri. Hann getur dregið sig alveg inní kuðunginn, verði hann fyrir styggð og lokað fyrir með hægri klónni. Kuðungakrabbi er með 2-4 cm langan skjöld sem stendur fram úr kuðungnum þegar krabbinn er á ferð. Afturbúkur krabbans sem er innan við skjöldinn er linur en þar hlífir kuðungurinn honum. Hann er með tvenn fótapör og tvær misstórar gripklær, stóra hægrikló og litla vinstrikló. Kuðungakrabbi er með tvö augu á stilkum framan á höfðinu, til hliðar við þau eru tveir langir fálmarar og tveir stuttir á milli eða undir þeim. Skjöldurinn og klærnar eru bláleit eða gulbrún, flekkótt eða röndótt að ofan en hvít að neðan. Fremst á klónum eru tvær raðir af vörtum og rauð rönd á milli. Eins og aðrir krabbar þarf kuðungakrabbinn að skipta um skel þegar hann stækkar. Eftir að hann losnar úr gömlu skelinni blæs hann út og myndar um sig nýja skel sem er vel við vöxt.

Fæða og æxlun

Kuðungakrabbi er dýraæta, tekur bæði dýr í og á botni, sem og svifdýr. Hann hrygnir strax á 1. ári, en talið er að hann geti orðið að minnsta kosti þriggja ára.

Útbreiðsa

Lifir neðst í grýttum fjörum um allt land niður á 30 m dýpi. Heimsútbreiðslan er í Norður-Atlantshafi. Hann lifir með ströndum Evrópu frá Norður-Noregi til Portúgal.