Landrænn reki á uppruna sinn á landi en það getur verið mismunandi hvernig reki þessi berst í fjöruna. Megnið af þessum reka eru hlutir eða vara sem hefur verið framleitt af manninum og getur verið úr ýmsum efnum, sem endast í mislangan tíma, sumt getur verið að brotna niður á stuttum tíma eins og það sem búið er til úr pappír. Annað tekur árhundruð eða jafnvel milljón ár að brotna niður, það á við t.d. um glerflöskur sem hafa líklega einna lengstan niðurbrotstíma af því rusli sem finna má í fjöru. Það er því ekki að ástæðulausu að hvatt er til þess að endurnýta eða endurvinna glerflöskur. Hluti af landræna rekanum á sér lífrænan uppruna og er rekaviðurinn mest áberandi hér á Íslandi. Það er vel þekkt að rekaviðurinn sem kemur til Íslands á uppruna sinn í skógum Síberíu, tré sem hafa verið felld með stórfljótum Síberíu. Eitthvað af trjánum sleppur fram hjá þar sem bolum er safnað í síberískar sögunarmyllur. Trjábolina rekur með Síberíu í austur og fara svo í flókið straumakerfi Norðuríshafsins, hluti af rekaviðnum berst svo með Austur-Grænlandsstraumnum til Íslands. Rekaviður brest lítið til landsins nú seinni árin og þeir bolir sem finna má í fjöru eru flestir einhverja áratuga gamlir. Íslendingar hafa nýtt rekavið um aldir, sem smíðavið, girðingarefni og eldivið.