Hafrænn reki

Við köllum það hafrænan reka, það sem hefur rekið á fjörur og á uppruna sinn í sjónum. Þetta geta verið lífverur af ýmsum toga, þörungar sem slitna upp er líklega algengasti rekinn, en ýmiss konar sjávardýr eða hluti þeirra rekur einnig tíðum. Bæði fjörudýr og dýr sem lifa dýpra eða lengra til hafs. Mikið af þeim lífverum sem hér er fjallað um geta fundist reknar. Á myndunum má sjá rekinn skollakopp, sem fjallað er um annars staðar og helsingjanef (Lepas sp.) á netakúlu. Helsingjanef eru  krabbadýr af ættbálki skelskúfa (Cirripedia). Þau sía fæðu úr sjó og  eru skyld hrúðurkörlum. Skelin er á stilk sem svo er festur við sjávarbotn eða sjávarkletta eða hluti sem reka í sjónum. Sumar tegundir lifa á nokkru dýpi og finnast helst á rekaviði og öðru því sem rekur upp á strönd. Oftast eru helsingjanef mörg saman og mynda klasa á undirlaginu.