Lónaþreifill (Pygospio elegans)

Útlit

Lónaþreifill er burstaormur sem grefur sig í leðju á leirum, oft í árósum og lónum. Hann dvelur í sandpípum, sem standa uppúr leðjunni, oft mjög þétt og í mergð. Hann er með langa þreifara sem brotna  af við hnjask. Lengd um 15 mm.

Fæða og tímgun

Síar fæðu úr yfirborði leirunnar eða sjónum næst því. Æxlun er bæði kynæxlun og kynlaus æxlun. Sú kynlausa þegar hlýrra er, en kynæxlun í kuldatíð.

Útbreiðsla

Lónaþreifillinn er algengur í búsvæði sínu, leirum, um land allt. Hann er algengur í Norður-Atlantshafi og einnig á Kyrrhafsströnd Ameríku, frá Kanada suður til Kaliforníu.