Marglyttur (Scyphozoa)

Marglyttur eru þekktustu og mest áberandi holdýrin og er hveljustigið langmest áberandi meðal þeirra. Hveljustig marglyttunnar er kynþroskastig hennar og þá sleppir hún kynfrumum sem breytast í lirfur. Þessi lirfustig setjast svo til botns sem litlir holsepar og bíða af sér veturinn. Á vorin fer sepastigið að vaxa og fjölga sér. Á sumrin og haustin þroskast það yfir í hveljustig og losnar frá botni. Marglyttur eru því helst á sveimi á yfirborði á sumrin og fram á haust.

Marglyttur eru stærstu svifdýr sjávar og verða oft yfir metri í þvermál. Brennihveljan eða brennimarglyttan (Cyanea capillata)  er stærsta marglytta í heiminum og er skráð í heimsmetabók Guinness sem lengsti hryggleysinginn. Brenniþræðir sem koma niður úr henni geta orðið allt að 37 metra langir. Brennihveljan og bláglyttan (Aurelia aurita) er algengustu marglyttur við Ísland. Bláglyttan er bæði minni, skaðlausari og algengari en brennihveljan. Farið með bendilinn yfir myndirnar eða smellið á þær til að sjá nöfn dýranna.