Marhálmur (Zostera angustifolia)
Lýsing
Fremur hávaxin sjávarjurt (30–100 cm) með stakstæð, dökkgræn, bandlaga, 2–4 mm breið, beinstrengjótt blöð. Ofan í botnleirnum vaxa jarðlægir stönglar og upp af þeim blaðþyrpingar með reglulegu millibili.
Marhálmurinn er eina blómplantan sem vex alfarið í sjó. Blómin í tveim röðum í klasa sem lokaður er inni í blaðslíðrum Blómgast í ágúst–október.
Útbreiðsla
Marhálmur vex víða við vesturströnd landsins en er sjaldgæfur annars staðar. Hann vex á grunnsævi á leirbotni, einnig í lygnum vogum, víkum eða sjávarpollum, annað hvort á kafi í sjó eða að hluta upp úr á fjöru.
Nytjar
Marhálmur var mikil nytjaplanta, fyrir utan að vera beitarjurt og áburðarplanta, var hann mikið nýttur í einangrun húsa, rúmdýnur o.fl. Hann var fluttur landshluta á milli af þeim stöðum sem mest var af honum. Um 1930 kom upp sjúkdómur í marhálmi í Norður-Atlantshafi sem eyddi nærri öllum marhálmi á svæðinu, meðal annars á Íslandi. Það tók langan tíma þar til hann jafnaði sig aftur og er talið að hann eigi enn nokkuð eftir til að ná aftur fyrri útbreiðslu sinni. Margæsir lifa að stórum hluta á marhálmi og þegar útbreiðsla marhálmsins minnkaði, fækkaði margæsum verulega. Þeim hefur síðan fjölgað aftur, smám saman, samfara aukningu í marhálminum.