Marhnútur (Myoxocephalus scorpius)
Útlit
Marhnútur er oftast brúnleitur og flekkóttur og geta flekkir hans verið gulir, rauðir, grænir eða bleikir og fellur hann því vel saman við sjávarbotninn. Marhnúturinn getur orðið allt milli 40 til 60 cm langur. Hann er kjaftstór og með og þykkar varir. Bolurinn er þykkastur rétt aftan við höfuð og mjókkar aftur. Marhnútur hefur tvo, fremur háa bakugga og raufarugga undir stirtlu sem er svipaður að stærð og aftari bakugginn. Eyruggarnir eru stórir og kviðuggarnir langir og mjóir. Sporðurinn er allstór og bogadreginn að aftan.
Fæða og tímgun
Marhnúturinn er ránfiskur og hálfgerð alæta. Hann leynist vel á botninum í felubúningi sínum og nýtir það til að laumast að bráð sinni, sem oft eru aðrir fiskar. Hann makast að vetri til og hrygnir rauðgulum eggjum í klösum milli sjávargróðurs. Á haus og tálknalokum eru margir hvassir broddar, og meðan á mökun stendur gefa broddar hængsins frá sér eitur. Hængurinn gætir hrognanna þangað til þau klekjast í maí.
Útbreiðsla
Marhnúturinn er grunnsævisfiskur, sem finnst allt í kringum landið. Hann kemur oft á öngulinn hjá þeim sem dorga við bryggjur, en er ekkert nýttur hérlendis.