Maríusvunta (Ulva lactuca)
Útlit
Himnukenndur grænþörungur, einn algengasti grænþörungur við landið. Blaðkan er græn, en verður brúnleit ef hún þornar, en hún þolir þurrk fremur illa. Lengd 10-20 cm og 5-10 cm breidd, en getur þó orðið stærri. Hún festir sig við klappir og grjót með lítilli skífulaga festu og upp af henni er mjög stuttur stilkur. Eitt heilt blað situr á stilknum. Það er bylgjótt og heilrennt, fagurgrænt og á litinn og oft glansandi. Maríusvuntan er stökk þegar hún þornar, en mýkist þegar sjór flæðir yfir hana.
Líkist marglýju og grænhimnu. Þær eru þynnri en maríusvunta. Við smásjárskoðun á þversneið af blöðkunni sést að maríusvunta er gerð úr tveimur frumulögum, en hinar úr einu.
Útbreiðsla
Maríusvuntan er útbreidd á Suðvestur- og Vesturlandi, en sjaldgæf við Norður- og Austurland. Hún vex neðarlega í grýttum fjörum eða klapparfjörum, bæði skjólsælum og brimasömum. Sums staðar vex hún í stórum breiðum þar sem skilyrði eru hagstæð. Maríusvunta vex víða um heim, hér eru norðurmörk útbreiðslu hennar.
Nytjar
Erlend heiti á maríusvuntu eru m.a. havsalat (norska) og sea lettuce (enska). Sem bendir til að hún sé góður matþörungur. Hún er nýtt bæði fersk og þurrkuð víða um heim. Best er að tína hana á vorin, en líka má tína hana á öðrum árstíum. Nánar í nytjakafla.